9 Guggudýrið <$BlogRSDUrl$>

mánudagur, september 29, 2003

Mánudagur.....

...til mæðu!! Er ekki í stuði....held að ég sé ennþá þreytt eftir helgina. Upplifði næst versta þynnkudag þessa árs í gær. Lá í móki uppi í rúmi allan daginn. Skreið svo framm úr um fimm leitið til að horfa á formúluna. Hresstist við það, enda ótrúlega spennandi og skemmtilegur kappastur, og skellti mér svo í bíó. Fór að sjá The Italian Job.....það er bara nokk skemmtileg mynd....finnst samt svolítið furðulegt að halda með vonda kallinum af því manni finnst hann sætastur!!!

Jet Black Joe voru massa fínir og það er langt síðan ég hef hrist mig og skakað frá upphafi balls til enda. Hitti gamlan bekkjarfélaga sem þótti álíka fyndið og mér að geta sagt að maður hafi ekki farið á ball með þessari hljómsveit í 10 ár :)

Halla meðleigjandi var að spreyta sig á nýliðaprófi í björgunarsveit um helgina. Hún vakti frá föstudagsmorgni til miðnættis á laugardegi....rosa dugleg. Þegar hún svo kom heim á sunnudaginn ákvað hún að halda partý fyrir fellow björgunarsveitarnýmeðlimi og það var dúndurpartý þegar ég kom heim úr bíóinu og eins og alltaf voru sniglarnir aðal skemmtiatriðið.....merkilegt hvað þessir sniglar eru merkilegir þó þeir geri nánast ekki neitt nema éta gúrkur og sofa!!!

Segjum það í bili
Guggs

föstudagur, september 26, 2003

Plaff!!!......

....Þarna sprakk ég! Það er hægt að éta yfir sig og það er hægt að éta gjörsamlega yfir sig. Í morgun birtist s.s. hátt settur bankamaður og færði okkur risastóra körfu fulla af brauði, sultu, salati, pestó, ostum og sætabrauði. Ég tróð þessu ofan í mig með áfergju og skolaði svo öllu niður með ísköldi kóki. Maginn á mér er svo stútfullur að ég er farin að halda að ég nái bara ekki að halda þessu öllu niðri.

Smá misskilningur með djammið á laugardaginn komandi. Það er víst ekki SSSól sem ætlar að trylla lýðinn heldur Jet Black Joe. Mér er nú alveg slétt sama hvor þessara eðalhljómsveita tryllir lýðinn.....býst við því að ég verði tryllt hvort sem er. Það er meira að segja lengra síðan ég tjúttaði með JBJ en SSS. Versta er að hópurinn minn er búinn að ákveða að hittast kl. 13:00 á sunnudagsmorguninn til þess að vinna helvítis verkefnið sem ég minntist á í gær....ætli maður verði ekki soldið glær!!!

Svo veit ég bara ekkert hvað ég á að gera í kveld. Ætli ég verði ekki bara heima hjá mömmu að horfa á Ríkissjónvarpið í LazyBoy stólnum hans pabba af því hann er einhversstaðar að vinna. En ef einhver vill stinga upp á einhverju öðru skemmtilegu þá er það vel þegið.

Teik mí avei tú ðe bis kos ðe vei koma sá....jahú!!!

fimmtudagur, september 25, 2003

Hei kanína....

....kond'í partý!!!! Anski skemmtileg grein í Mogganum í dag þar sem fjallað er um 15 ára afmæli Sálarinnar. Greinarhöfundur skýrir frá þessum atburði og segir í lokin að þeir smellir sem hafi á sínum tíma komið Sálinni á kortið hafi verið "Á tjá og tundri" og "Hei kanína" .....já já...Hei kanína var það heillin!!! Spurning um hvort kanínan hafi skemmt sér í þessu partýi og Nína greyið setið heima í fýlu!?!?!

Er að vinna eitthvað helvítis hópverkefni í skólanum og ég nenni því innilega ekki. Mitt verk í þessu verkefni er að gera STP greiningu á tilvonandi viðskiptavinum fyrirtækis sem við eigum að þykast vera að stofna. Nú gætuð þið spurt ,,hvað er STP greining?" ... ég hef grun um að þetta standi fyrir "Stór Tímasóun og Pirringur".

Stórþvottadagur í gær. Þvoði nánast öll fötin mín (eða stóran hluta af þeim fötum sem ég nota dagsdaglega), hengdi þau upp á snúru í kjallaranum og var voða ánægð með sjálfa mig. Þegar ég svo vaknaði í morgun mundi ég eftir því að ég þyrfti að vera voða sæt í dag vegna þess að einhver ljósmyndari ætlaði að taka mynd af okkur í vinnunni út af sameiningunni. ,,Arrgg...!!" hugsaði ég því öll flottu fötin mín voru sko ekki orðin þurr. Ég stóð því frammi fyrir því að velja á milli þess að fara í einhverjum gömlum druslum í vinnuna eða fara í hálfblaut föt......óhætt að segja að það hafi verið svolítið kalt að skafa af bílnum í blautri peysu!!


þriðjudagur, september 23, 2003

Hver dagur er.....

.....fullur gleði!!! Ég var að láta mér leiðast í vinnuni....eða á ég frekar að segja að ég hafi verið að sóa tímanum í vitleysu (á launum). Ég kíkti inn á síðu sem var í miklu uppáhaldi hjá mér árið 2001. Síðan heitir emode.com og á henni er hægt að taka alls konar próf og drasl. Ég ákvað að skella mér á eitt próf sem segir mér hvort ég er bjartsýn eða svartsýn og má með sanni segja að ég sé bjartsýnni er sjálf Pollýana og sólin fær ofbirtu í augun af því ég er svo björt og glöð....fyrr má nú aldeilis fyrr vera!!!

Síðastliðin vika hefur reynst landanum skemmtileg hvað varðar nýjar seríur af raunveruleika þáttum. Lítur út fyrir að nýji Bachelor verði dramatískur með eindæmum, ein strax farin að grenja og hún var ekki einu sinni farin að heiman....jesúspétur!!! Survivor lofar góðu.....strax farið að bitsast og stinga fólk í bakið.....og eins og við frænkurnar tókum svo vel eftir þá er alveg slatti af fallegum, hálfnöktum karlmönnum í þessari seríu (strákarnir fengu e-ð til að slefa yfir í síðustu seríu). Nú síðast en ekki síst má svo nefna hinn margrómaða stælíslenska Stjörnuleit. Ég er nú svo heppin að vera ein af fáum Íslendingum sem horfið ekki á þáttinn en ég er búin að heyra þrennt um hann.....Bubbi leiðinlegur.....hallærislegasti sjónvarpsþáttur ever....og....Bubbi leiðinlegur!!! Ég er bara fegin að hafa ekki horft.

Fór á Argentínu um síðustu helgi og borðaði þar bestu súkkulaðiköku sem hefur verið búin til í heiminum frá upphafi súkkulaðikökubaksturs.....ekki djók!!! Við hvern bita sem fór inn fyrir mínar varir gaf ég frá mér frygðarstunur.....ég sver það.....aumingja þjónninn roðnaði og blánaði. Andrea varð reyndar alveg dúndurskotin í þjóninum og horfði svo mikið hann að hún hafði varla tíma til að borða :) Hann var nú líka alveg þræl sætur...kannski aðeins of ungur fyrir mig...(ef það er hægt)!!!

Svo er bara næsta helgi að verða tilbúin......kominn tími á að taka eitt djamm fyrir austan. Skella sér á SSSól og fá smá nostalgíufíling í sig.

Mæli ekki með Bad Boys II...nema náttúrulega bara til þess að horfa á Will Smith. Kannski er því um að kenna að ég sat á næst fremsta bekk...alveg lengst til vinstri. Það tók mig u.þ.b. sólarhring að ná augunum úr kross....ég sver það.

Annars er ég bara búin á því núna og bara farin heim að sofa....eða ekki!!!
Guggus

fimmtudagur, september 18, 2003

Það er gúrkutíð....

.....í fréttaflutningi mínum nú og sé ég ekki fram á að það lagist á næstu dögum. Það er gúrkutíð í vinnunni líka. Einn samstarfsmaður minn kom til mín rétt áðan og grátbað mig um að skrifa eitthvað hér inn svo hann hefði eitthvað að gera í dag......

Það er nú samt ekkert lítið að gerast hjá mér....bara ósköp ófréttnæmt. Skólinn tekur mikin tíma frá mér núna. Var að læra úti í skóla í gærkveldi.....sem er nú kannski ekki frásögu færandi nema hvað að hún Magga vinkona var úti í skóla líka (hún er svo dugleg að læra kerlingin) og þegar ég var búin að læra skrapp ég til hennar. Við byrjuðum svo að kjafta (n.b. ég er ekki búin að hitta Möggu síðan á Hróarskeldu) og þegar ég svo loks sleit samtalinu og skipaði henni aftur inn á bókasafn að lesa þá var liðin heill klukkutími. Svona hlut kalla ég í daglegu tali Mögguheilkennið... þ.e. þegar maður byrjar að tala við hana gengur tíminn hraðar og fyrr en varir er maður búinn að kjafta frá sér allt vit (að ég tali nú ekki um einhverja þúsundkalla ef samtalið fer fram í gegnum síma).

Við Margrét erum s.s. búnar að ákveða að vera duglegar um helgina og læra úti í skóla. Fara svo heim til Mags á laugardagskvöldið og glápa á vídeó (kannski fá sér einn-tvo öl). Það er fyrsta helgin í manna minnum þar sem ekkert djamm verður á minni....ekki laust við að maður sé orðinn soldið spenntur...ekki á hverjum degi sem maður gerir eitthvað nýtt!!

Er að fara út að borða á morgun. Ég og litla frænka ætlum að fara út að borða á Argentínu í tilefni tvítugsafmælis hennar. Gavöð hvað ég hlakka til. Kíkti á matseðilinn á netinu og á í erfiðleikum með að ákveða hvort ég ætla að panta nautalund eða humarfylltar grísalundir.....jammí...!!!

Jæja nú ætti Bjössi að geta haldið sér uppteknum í smá stund.....en ef honum heldur áfram að leiðast þá er spurning um hvort ég tölti ekki bara yfir til hans og skori á hann í myllu!!

Over and out
Gavöðbjörg

miðvikudagur, september 17, 2003

Þetta skjalasafn....

....er alveg að fara í taugarnar á mér.....í fyrsta lagi virkaði það ekki til að byrja með og nú er það bara horfið....

....ja hérna!!!
Ég trúi þessu bara ekki...

....ég var búin að skrifa alveg þvílíkan póst og seivaði hann og alles og svo bara púff....hvarf hann og ég er búin að vera í fýlu í u.þ.b. klukkutíma....alveg brjáluð að leita að helvítinu. Þetta var heilmikil frásögn frá síðustu helgi þar sem ég tíndi til allt það helsta og ég trúi því ekki að ég þurfi að gera það aftur.....en ég hlýt að meika það...lítið að gera í vinnuni!!

Þannig að hér koma helstu punktar helgarinnar....

Helgin byrjaði mjög snemma. Ég fór í Bítlabæinn á miðvikudag að sækja Huldu frænku á flugvöllinn en hún ákvað að koma öllum á óvart og mæta í réttir. Hún var ekki búin að segja neinum frá þessu og þegar ég svo skutlaði henni upp í sveit þá lá við að það þyrfti að kalla á sjúkrabíl því familían var bara í sjokki yfir þessu. Systir hennar gólaði, frændi hennar missti málið og mamma hennar þurfti bara að setjast niður.

Við Andrea fórum upp í sveit á fimmtudagskvöldinu en ákváðum að fara í háttinn fyrir miðnætti til að losna undan ágangi frá mesta eilífðargúmmítöffara sem ég hef á ævinni komist í kynni við. "Eigum við að fara út í sportbílinn minn að hlusta á geisladiska?"

Föstudagurinn rann upp bjartur og fagur og við eftir að hafa klætt okkur í síðar nærbuxur og nærbol, buxur og peysu, regnbuxur og lopapeysu lögðum við af stað. Ég er alveg sammála mér í því að þetta sé einn besti dagur ársins. Hversu yndislegur er að vera úti heilan dag að draga rollur, hlaupa á eftir rollum, fara á hestbak, hitta ættingjana í dúndur stuði og opna fyrsta bjórinn sinn klukkan 10 að morgni meðan aðrir eru að vinna??

Talandi um að hlaupa á eftir rollum. Ég gerði dáldið af því og í því fólst að hlaupa á eftir þeim upp um hóla og hæðir og tók ég einn svoleiðis sprett. Eftir ágætis hlaup upp og niður, fljúgandi á hausinn, búin að fara úr lopapeysunni og regnbuxunum en samt alveg að springa úr hita benti ein frænka mín mér á það að ég væri alveg ofboðslega rauð í framan...mjög fallega gert af henni. Um það bil tveimur tímum seinna sit ég í rólegheitunum á hestbaki og heyri tvær konur á tali fyrir aftan mig...önnur segir: ,,Rosalega verður manni heitt að labba svona..er ég ekki rauð í framan?" ...og þá segir hin: ,,Já soldið rauð en ekkert miðað við hana Guggu áðan!"

Réttaballið í Árnesi var flábælt. Ég dansaði eins og moðerfokker og skemmti mér agalega vel. Ég var spurð að því hvort ég hefði ekki náð mér í einhvern gæja og ég benti á það að það hefur líklega enginn drengur haft mikin áhuga á að koma mikið nálægt þessari manneskju sem hoppaði og skoppaði út um öll gólf, rennandi sveitt og eldrauð í framan!! Gisti svo hjá kettinum hennar Öllu sem nota bene er bara ágætis koddi!! ;)

Laugardagurinn rann upp með roki og rigningu og þar sem við lágum í leti fyrir framan sjónvarpið og átum nammi og drukkum kók varð okkur hugsað til aumingja skeiðamannana sem þurftu að rétta í þessu líka agalega veðri. En helgi var ekki búin...ó nó sör!! Eftir stutt sturtustopp hjá mömmu og pabbi brunaði ég upp í tungur til að fylgja Bítlabæjarbeibinu á ball.

Það var þvílíkt fjör þar og við tjúttuðum eins og sannar sveitatúttur. Ég verð nú að segja ykkur frá frekar óskemmtilegri en skondinni viðreynslu sem ég lenti í þar. Gítarleikarinn í bandinu tók ástfóstri við mig og eyddi ballinu í að blikka mig og stælast eitthvað þarna á sviðinu. Kom svo og talaði við mig í hléinu og allt í góðu en svo þegar ballinu lauk hoppaði hann niður af sviðinu og til mín og settist í fangið á mér þar sem ég sat í sakleysi mínu að spjalla við Janus. Næsta sem ég veit er gæinn kominn með lúkurnar inn á mig og svo sé ég bara hvar túllinn stefnir á ógnarhraða í áttina að mínum rósfögru vörum. Þá var minni nóg boði og ég skipaði þessum asna að snáfa í burtu. Nú eruð þið eflaust að hugsa hvers vegna ég rak hann á brott....sjálfan gítarleikarann í bandinu. Það er vegna þess að ég er ekki búin að segja hvaða hljómsveit var að spila. Hann var s.s. gítarleikarinn í Hljómsveit Geirmundar Valtýssonar og var ábyggilega ekki degi yngri en fertugur!!!

Annars var heilsan bara ótrúlega góð þrátt fyrir bara smá þreytu og þakka ég það matarræði mínu þessa helgi en það var nokkurn veginn svona:

Föstudagur-kvöld: Réttasúpa
Föstudagur-eftir ball: Réttasúpa
Laugardagur-hádegi: Réttasúpa
Laugardagur-kvöld: Réttasúpa
Laugardagur-eftir ball: Réttasúpa
Sunnudagur-hádegi: Réttasúpa

Í lokinn ætla ég svo að benda á nýjan vitleysing hér til hliðar. Sá ungi maður var eitt sinn að vinna með mér en er nú fluttur til Danmerkur og farinn í skóla þar.

Annað í lokin....endilega setjið inn komment....það er svo skemmtilegt ;þ

Kær kveðja
Ó-Kindin

mánudagur, september 08, 2003

Ljósanóttin búin....

...og ég komin með kvef :(
En það verður að hafa það því helgin var flábæl (eins og við segjum núna). Fórum út á föstudagskvöldið til þess að skoða úrvalið og það var nóg af því skal ég segja ykkur. Vorum alla nóttina að skoða úrvalið og skoluðum því öllu niður með innihaldi úr nokkrum ölkrúsum. Létum svo til skara skríða á laugardagskvöldið. Höfðum þó lítið upp úr krafsinu annað en það að við erum nú með á hreinu hvað hægt er að skemmta sér þarna í framtíinni. Jana setti sér það markmið í upphafi kvöld að taka mynd af mér og hugsanlega tilvonandi eiginmanni mínum og áttu úrslitin að ráðast af því hversu vel við mynduðumst saman. Óhætt er að segja að af þeim 13 sem ég sat með á mynd þá var einn afgerandi sigurvegari en í aulaskap okkar gleymdum við bæði að taka niður nafnið hans og síma...smá klúður. Frekar frásagnir af helginni má finna á síðunni hennar Jönu hér til hliðar.
Nú er planið hjá mér, í sumarfrísrestinni minni, að ná úr mér þessari hálsbólgu svo ég verði orðin hress næsta föstudag....og ef ég verð það ekki verð ég alveg brjáluð....já alveg brjáluð.
Eyddi ábyggilega alveg fullt af peningum um helgina og þori ekki að kíkja inn á reikninginn minn því þá dett ég í algjört þunglyndi....en sumar helgar eru bara peningana virði....þarf ekki að eyða miklum peningum um næstu helgi því ég á ennþá tæpan líter af vodka...eina Southern Comfort flösku og eina Amarula...þannig að ég er vel stæð í þeim efnum.
Jæja!!...fyrsti dagurin í sumarfrísrestinni að verða búinn og var bara ágætur fyrir utan hálsbólguna...kom bara ein símhringing frá vinnunni...ég er nefnilega svo ómissandi :) en ég held að Vala hafi bara saknað mín og viljað heyra í mér...ég er nefnilega líka svo skemmtileg ;)
Annars er ég bara hætt í dag....ætla að kveikja á kertum og hlusta á Billy Holiday og hafa það næs!!
Guggulugg

fimmtudagur, september 04, 2003

Tíminn líður hra att....

...á gervihnattaöld...en ekki ákkúrat núna. Hangi niðr'í vinnu og hef ekkert að gera nema dúlla mér á netinu. Ákvað að breyta aðeins til hjá mér og taka út neikvæðina í "Hvur andskotinn" og fordómana á aumingja strumpana sem ekkert hafa gert mér og gerast svolítið háfleyg, en það get ég átt til stundum, og setti inn þennan líka fína titil. Enda er lífið ekkert annað en stanzlaus glaumur og gleði.

Fór í bíó í gær með Ingu fjallakonu. Sáum mynd sem sýnd er á breskum dögum í Háskólabíói sem heitir "The Magdalene Sisters". Ágætis mynd sem sýnir bara hvað það er stutt síðan ástandið var eins hjá konum á vesturlöndum eins og það er í dag í mörgum múslimaríkjum. Er svo búin að ákveða í framhladi af þessari að sjá Plots with a View. Held að hún sé alveg truflað fyndin en hún fjallar um viðskiptastríð á milli tveggja útfararstofa í smábæ í Wales....bara þessi setning er næg ástæða til þess að sjá hana. Ein manneskja sem ég þekki spurði hvort ég væri bíósjúklingur...en ég held ekki...tek þetta bara svona í skorpum.

Held ég hafi skemmt ljósritunarvélina í vinnunni. Þannig er það nú að þegar það festist pappír í henni er ekki kallað á viðgerðarmann heldur mig og ég tek mig þá til og skrúfa vélardrusluna í sundur og plokka helvítis pappírinn út með flísatöng og prjóni. Nú, hef ég ábyggilega gert þetta svona sjö..átta sinnum og alltaf heppast alveg fullkomlega.....nemma hvað að núna heyrast einhver óhljóð í henni og ég er búin að koma þeim skilaboðum á framfæri að ef einhver spyr (viðgerðarmaður eða annar) þá veit enginn neitt!!

Jæja en nú er tími til kominn að drullast heim. Ætla að koma við í búð og kaupa mér sjampó og ný rakvélablöð, fara svo heim, setja á mig maska og gera allt sem pæja eins og ég þarf að gera áður en hún fer á hugsanlegt veiðidjamm svo hún verði alveg ómótstæðileg og karlmenn standi í röðum til að fá að hitta hana....

Kærleikskveðja
Guggudýrið

miðvikudagur, september 03, 2003

Hvaða dagur er í dag??....

....ástæðan fyrir því að ég spyr er nefnilega sú að ég er að upplifa rugluðustu viku sem ég haf átt. Á mánudaginn fannst mér vera þriðjudagur, á þriðjudaginn miðvikudagur og svo í dag finnst mér vera fimmtudagur. Þetta þýðir að vikan er orðin alveg rosalega löng og ég sé ekki fyrir endann á henni, sérstaklega vegna þess að ég hlakka svo til að fara til Kefló um helgina að tjútta. Það er þvílík stemming fyrir þessu partýi og nú er það eiginlega orðið svo að svefnrými eru orðin full í íbúðinni hennar Jönu og þurfa gestir annað hvort að koma með dýnu með sér eða bara finna sér einhvern góðan Keflvíking til þess að kúra hjá (væri ekki verra:)).

Fór á Sálina á föstudagskvöldið.....rosalega var troðið. Það fór ekki mikið fyrir dansfiminni á gólfinu því troðningurinn var svo mikill að maður veltist þarna um og barðist fyrir því að halda plássi á gólfinu....ótrúlega skemmtilegt!!! Þetta var annars tíðindalítið kvöld. Sá einn sætan strák en svo þegar ég ætlaði að rekast "óvart" á hann þá var hann bara horfinn. Það kom reyndar upp að mér drengur, brosti og sagði hæ! Tók mig smá stund að fatta að þetta var gaurinn síðan á menningarnótt sem hélt að ég væri sænsk....honum fannst ég ennþá vera sænsk.

Það er allt að falla í fastar skorður með skólann, vinnuna og allt hitt. Ég er með einn mjög myndarlegan kennara í einu fagi og ég stóð mig að því, í stað þess að hlusta á fyrirlesturinn, að halla undir flatt, stara á hann og dást að því hvað maðurinn er geðveikt fallegur.....ennþá eimir eitthvað eftir af gelgjunni í manni ;) Mamma segir reyndar að hann sé allt of gamall fyrir mig....heilum sex árum eldri en ég :þ

Ég er í fríi í næstu viku og verkefnin eru að hrannast upp. Lesa eina skólabók, læra fyrir eitt próf, fara með druslupútuna í skoðun, fara með frystiskápinn í viðgerð og svo að sjálfsögðu...fara í RÉTTIR!! Vikan endar svo á tveimur brjáluðum réttaböllum....jíha!!

Sendi Svenna dúllu SMS í tilefni afmælisins 27.ágúst. Fékk til baka skilaboð þar sem hann skýrir frá því að það sé æðislegt að eiga afmæli í Barcelona.....djöfullinn....mig langar að eiga afmæli og vera í Barcelona með kærasta......ósanngjarnt!!!

Heido!! (eins og þeir segja á sænsku)
Guggz

This page is powered by Blogger. Isn't yours?